miðvikudagur, desember 31, 2008

Litið yfir árið 2008

Ég ætla að fara létt yfir árið 2008 sem verður hugsanlega eitt af minnisstæðustu árum mínum :)
Janúar
Man ekki eftir neinu rosalega minnisstæðu en uppáhaldsleikarinn minn lést í janúar í fyrra en það var hann Heath Ledger. Var einmitt að horfa á síðustu myndina sem hann lék í Dark Knights og hún var algjör snilld mæli eindregið með henni

Febrúar

Það voru páskar í þessum mánuði.
Mars
Það voru páskar í þessum mánuði. Við keyrðum austur og tókum Dóra með okkur á skíði. Á leiðinni austur vorum við orðin mjög svöng og ætluðum að kaupa okkur eitthvað á Hornafirði að borða en nei nei ekkert opið. Þannig að við héldum áfram og vorum komin rétt fyrir utan Hornafjörð þá stoppaði löggan okkur fyrir að vera á 108 km/klst. Við höfðum það gott fyrir austan yfir páskana og Dóri tók þátt í sinni fyrstu skíðakeppni. Síðan keyrðum við aftur heim og þá stöðvaði löggan í Berufirði okkur fyrir að vera á 109. Þannig að við vorum einstaklega heppin í þessari ferð. Þegar við komum til baka þá ákvað ég að prufa svona óléttupróf og það reynist jákvætt og var ég þá bara komin 6 vikur á leið en þetta varð skemmtilegasta ferðalega sem ég hef gengið í gegnum :)

Apríl

Í apríl skelltum við okkur norður á Akureyri á Þrekmeistarann. Gunni, Jónína og fleiri bootcamparar voru að taka þátt. Ég ætlaði líka að taka þátt en hætti við því að ég var orðin ólétt og þorði ekki að taka neina sénsa. Bootcampararnir stóðu sig með stakri prýði og voru í flestum verðlaunasætum. Gunni og Jónína stóðu sig mjög vel og var ég mjög ánægð með þeirra frammistöðu. Nokkrum dögum seinna skellti ég mér með vinnunni til New York það var æðislegt að koma þangað. Við skoðuðum 3 leikskóla og það var mjög gaman að sjá hvernig skólarnir vinna miðað við íslenska skóla. Það var náttúrulega bara snilld að vera í föruneyti með Krissu, Rósu, Elísabet og Villu skemmtilegustu píurnar á svæðinu hehe.

Maí

Í maí eigum við skötuhjúin bæði afmæli. Ég varð 29 ára og Gunni komst á fertugsaldurinn hann hélt svaka partý. Ég fór í 12 vikna sónarinn í maí skemmtilegt að sjá hreyfingarnar og að litla baunin sé orðin að barni í bumbunni á manni :)

Júní

Man ekki eftir neinu sérstöku í þessum mánuði.
Júlí
Í Júlí komst ég í sumarfrí og byrjaði fríið á að fara austur á aldarafmæli Guðríðar ömmu. Þannig að öll fjölskyldan sem er útaf henni hittist í Viðfirði og skemmtu sér saman. Gaman að sjá hvað þessi fjölskylda er orðin stór. Þarna voru 3 bumbur allar komnar svipað langt. Síðan var haldið aftur suður. Við fórum í 20 vikna sónarinn og komumst að því að gekk með strák. Ég og Gunni keyrðum síðan yfir sprengisand sem var rosalega gaman að keyra og sjá allt fjallalandslagið á hálendinu það er alveg magnað. Á þessari leið sáum við 3 fossa, Aldeyjarfoss sem er með flottustu fossum sem ég hef séð hingað til hann er með stuðlaberg allstaðar í kringum sig þannig að það er eins og það séu fullt af andlitum í berginu alveg magnað að sjá það, Hrafnagilsfoss (minnir mig) og Goðafoss. Foreldrar Gunna voru svo með sumarbústað rétt hjá Húsavík og við gistum hjá þeim í 2 nætur og keyrðum yfir á Mývatn og skoðuðum Víti sem er þar. Við keyrðum síðan á Borgarfjörð Eystri og skelltum okkur á Bræðslutónleika það var ótrúlega gaman og skemmtileg upplifun. Við keyrðum líka yfir í Loðmundafjörð sem er mjög fallegur eyðifjörður þar eru bara núna sumarhús. Síðan fórum við á Nobban ég fór um nóttina eftir tónleikana því að Gunni ætlaði að labba á Dyrfjöll sem hann gerði svo ekki (sem betur fer) þannig að ég ákvað að fara með Þórdísi og Toffy á Nobban.

Ágúst

Við vorum á Neistaflugi þessa verslunarmannahelgina það var bara mjög fínt skelltum okkur á ball með Buff sem var rosalega gaman. Ætluðum líka að fara á NýDönsk en hættum við og sáum sko ekki eftir því þegar við spjöllum við fólk eftir það þetta voru víst bara róleg lög og ekkert fútt í þeim. Þannig að það má segja að við höfum grætt 5000 kall. Við skelltum okkur svo í Viðfjörð í viku en það er besti staður í heimi að mínu mati. Gunni málaði heilt hús og ég prjónaði eins og ég veit ekki hvað. Veðrið var ekkert spennandi til útiveru þannig að maður sat bara og prjónaði og prjónaði :)
September
Í september skelltum við okkur til Þórsmerkur með vinnunni hans Gunna og gerðum eitt sem við eigum örugglega aldrei eftir að geta gert aftur á Ford Escape en við keyrðum yfir Krossá. Verð að viðurkenna að mér stóð ekkert á sama en við komumst samt yfir ána.
Október
Kreppan skellur á :). Ég fer niður í 50% í vinnunni og hætti svo alveg. Var hreinlega orðið mjög erfitt að vera í vinnunni.
Nóvember
19. nóvember verður væntanlega eftirminnilegasti dagur í nóvember sem ég hef upplifað en þá fæddist Þórarinn okkar. Degi fyrir settan dag í keisara virtist eitthvað ekki líka við 20. nóvember. Við ákváðum að skíra líka í nóvember því að mamma og pabbi komu suður og okkur fannst skemmtilegra að hafa þau með í skírninni. Drengurinn var s.s. skírður Þórarinn enda var hann mjög líkur afa sínum þegar hann fæddist.

Desember

Desember hefur bara verið eins og venjulegur desember nema að ég er bara búin að vera að læra að vera mamma. Það er mjög skemmtilegt hlutverk og stefni ég að því að halda því áfram endalaust.


Þetta var pistillinn minn fyrir 2008. Gleðilegt nýtt ár og hafið það sem allra best árið 2009 :)
|

miðvikudagur, desember 24, 2008

|